,,Reiðskólinn Fákar og fjör hefur verið starfræktur yfir sumartímann á Álftanesi síðan árið 2017. Í sumar verður þetta fimmta árið sem að krakkar frá Álftanesi og aðrir sem koma víðar að fá tækifæri til að sækja reiðskóla í einstöku umhverfi sem Álftnesingar búa við." Sp: Hvað eruð þið með marga hesta þ.ea.s. hvað geta margir verið á námskeiði í einu? ,,Um tuttugu skólahestar sinna því mikilvæga hlutverki að gefa nemendum á aldrinum 5-16 ára tækifæri til að kynnast íslenska hestinum. Í skólanum tileinka nemendur sér grunnfærni í reiðmennsku, læra um eðli og atferli hestsins og fá ýmsa aðra hestatengda fræðslu. Þar að auki er mikið um allskyns fjör og sprell. Fjöruferðir og vettvangsferðir í hagann eru nýttar í skemmtilega og fróðlega afþreyingu. Nemendum er skipt upp eftir aldri. Þeir allra yngstu eru 5-6 ára og eru á svokölluðu pollanámskeiði. Aðrir eru á ævintýranámskeiði og þar er aldurs- og getuskipt í hópa. Reiðskólinn býður einnig uppá hóp sem kallast Sjálfstæðir knapar sem er hugsaður fyrir nemendur sem eru búnir að fara á mörg námskeið eða eiga sinn eigin hest." Sp: Hverjir sjá um kennsluna? ,,Í reiðskólanum starfa tveir Hólaskólagengnir reiðkennarar, þ.e.a.s. við Karen Woodrow og Sif Jónsdóttir. Karen er með meistarapróf í verkefnastjórnun (MPM) frá Háskólanum í Reykjavík þar sem lokaverkefni hennar fjallaði um hvernig hestar geta nýst sem verkfæri í leiðtogastjórnun. Sif er með meistarapróf í klínískri sálfræði frá sama skóla. Lokaverkefni hennar fjallaði um áhrif hestameðferðar fyrir ungmenni í vanda. Einar Þór Jóhannsson sér hins vegar um að útvega hesta, reiðtygi, hagabeit ofl. Við erum líka einstaklega heppinn að vera með hóp af öflugu starfsfólki sem er mjög duglegt að leiðbeina krökkunum." Sp: Eru krakkar á Álftanesi efnilegir reiðmenn? ,,Það er gaman að fylgjast með áhugasömum krökkum á Álftanesi á hestbaki. Margir hafa engan bakgrunn í hestamennsku en elska að umgangast dýr. Krakkarnir ná fljótt að tileinka sér vönduð vinnubrögð í umgengni við hestana og öðlast sjálfstraust gagnvart hestinum. Þau fara strax á bak frá degi eitt og fara í marga skemmtilega útreiðatúra yfir námskeiðstímann. Með réttum stuðningi og góðri ástundun er engin spurning um að margir krakkar á Álftanesi myndu blómstra í hestamennsku. Það er gaman að segja frá því að þó nokkrir nemendur sem hafa sótt námskeið hjá reiðskólanum á undanförnum árum eru farin að stunda hestamennskuna að staðaldri hjá hestamannafélaginu Sóta og eru jafnvel að stíga sín fyrstu skref í keppni." Það er greinilega mikill metnaður hjá reiðskólanum Fákar og Fjör og gaman að sjá unga krakka ríðandi um Álftanesið á sumrin. Vefstjóra finnst sérstaklega gaman að sjá þessa ungu knapa njóta hestanna sinna í leik, ríðandi berbakt í fjörunni, liggjandi hjá þeim í haganum og bara njóta hrossanna sinna sem vin og félaga.
Vonandi fær reiðskólinn að blómstra áfram á Álftanesi svo hestamannafélagið Sóti geti notið þess að bjóða unga félaga velkomna. Það er svo sannarlega nýliðun í gangi hjá Sóta og það er ekki síst að þakka Karen, Sif og Einar Þór hjá reiðskólanum Fákar og Fjör. Upplýsingar um námskeið sumarið 2020 má finna hér: https://docs.google.com/forms/d/e/1FAIpQLScocoZpSLI9dDANEGqQBouakUWfWfyHomUgIHBKg7I2fc8t0g/viewform (myndir af Facebook síðu reiðskólans)
0 Comments
Leave a Reply. |
SótiVið Breiðumýri Frír aðgangur að World Feng fyrir skuldlausa félaga. Hafið samband við Elfi [email protected].
July 2024
|