Nú styttist í fyrstu vetrarleikana. Fyrirkomulagið verður með heldur óvenjulegu sniði miðað við undanfarin ár og er tilgangurinn með því að fá sem flesta til að mæta og hafa gaman og leika sér svolítið saman. Fyrsta mót sem fer fram þann 9. febrúar næstkomandi verður í því sem viljum láta heita SMALA og fer fram í gerðinu nýja. Um er að ræða liðakeppni þar sem fjórir keppa saman í liði og safna stigum. Þetta er keppni sem hvorki verður aldurs eða kynjaskipt þannig að nú er tækifæri fyrir alla að hóa saman í lið og keppa á jafnréttis grundvelli Það þarf að vera búið að tilkynna liðin í síðasta lagi fyrir miðnætti 5. febrúar. Senda þarf nöfn fjögurra liðsmanna og eins varamanns. Keppnisgjaldi verður í hóf stillt og verður 1.000.-kr á hvern liðsmann. Reglur keppninnar eru í smíðum en þær verða opinberaðar þegar skráningarfresti líkur. Þó er rétt að greina frá stigagjöfinni en hún verður með þeim hætti að sá einstaklingur sem sigrar, þ.e.a.s. nær besta tímanum og fær fæst refsistig, fær 4 stig, næsti 3 stig, þriðji 2 stig og allir aðrir sem mæta fá eitt stig. Einnig verða veitt tilþrifaverðlaun fyrir mestu tilþrifin. Það verður á hendi mótanefndar að ákveða hvaða þrautir verða lagðar fyrir keppendur en þær verða þó þannig að enginn þarf að hafa áhyggjur af að geta ekki leyst þær. Skömmu áður en keppni hefst verður svo farið í brautarskoðun með keppnisstjóra og gengið í gegnum brautina svo að allir viti hvaða leið skal fara og hvaða þrautir þarf að leysa. Eina sem þarf að hafa í huga núna er að liðin mega ekki notast við einn og sama hestinn. Hver liðsmaður þarf að hafa sinn hest en þó verður heimilt að koma með hvaða hest sem er. Hann þarf ekki að vera í eigu félagsmanns frekar en vill þannig að það er tækifæri fyrir mikla keppnismenn að fara og sækja besta smalahestinn í sveitinni og koma og rúlla þessu upp. Aðrar reglur verða gefnar út síðar. Nú skora ég á ALLA að mæta og eiga góðan og skemmtilegan dag saman. Þetta er fyrst og fremst til gamans gert og skemmtun og gleði skal vera höfð í fyrirrúmi. F.H. Mótanefndar. Erlingur Reyr Klemenzson ( Krummi )
0 Comments
Leave a Reply. |
SótiVið Breiðumýri Frír aðgangur að World Feng fyrir skuldlausa félaga. Hafið samband við Elfi [email protected].
July 2024
|